Gaman er að virða fyrir sér gömul hús þegar gengið er um þorpið unnið hefur verið markvisst að verndun menningarminja og húsa á Djúpavogi um árabil. Nú eru 15 byggingar friðaðar skv. lögum um menningarminjar. Þar ber að nefna Löngubúð sérstaklega en hún er eitt af elstu byggingum Íslands. Suðurendinn var byggður árið 1790 og norðurendinn kláraður 1852. Í Löngubúð er nú rekið kaffihús ásamt því að þar má finna þrjú söfn innanhús. Geysir (1900) hýsir nú bæjarskrifstofur Múlaþings, Hótel Framtíð var byggt 1906 en Faktorshúsið (1948) og Gamla kirkjan (1893) eru nú í endurbyggingu.
Á svæðinu í kringum voginn, miðbæjarsvæðið á Djúpavogi, er í gildi staðfest verndarsvæði í byggð, hið fyrsta sem staðfest var á landinu.
Cittaslow hugmyndafræðin hefur fengið að skína skýr í þeirri vinnu en við gerð deiliskipulags fyrir miðbæjarsvæðið hefur verið unnið undir formerkjum “Íbúar í forgrunni, gestir velkomnir”. Með því tekur skipulagsgerðin mið af því að framtíðarsýn og uppbygging sé fyrst og fremst á forsendum íbúa, og þeirra andlegu, líkamlegu og félagslegu þörfum sé mætt með markvissum hætti. Gestir eru velkomnir og horft er til þess að þeir þurfi að aðlaga sig að innviðum sem henta íbúum, en ekki öfugt.