Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslan á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými.

Með uppbyggingu á aðstöðunni fjölgar tækifærum fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi snjóbolta hafa sýnt verk sín í sýningarrýminu. Einnig eru fjölmargir listamenn sem hafa sett upp verk sjálfstæð verk sín í Tankinum allan ársins hring.

Ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði með þessum hætti og er Tankurinn á Djúpavogi því einn sinnar tegundar á landinu.

Tankurinn er dæmi um birtingarmynd hugmyndafræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja og endurnýtingu gamalla auðlinda í nýjar.