Djáknadys er toppmynduð grjóthrúga innarlega í Hamarsfirði. Í þjóðsögum er greint frá því að þar sem dysin er nú staðsett hafi presturinn á Hálsi mætt djáknanum á Hamri. Þeim varð sundurorða og endaði með því að þeir börðust og drápu hvor annan. Presturinn var jarðsettur í kirkjugarðinum á Hálsi, en djákninn dysjaður þar sem báðir fundust og kallað Djáknadys. Dysin er friðlýst.