Papey er stærsta eyjan úti fyrir Austurlandi, u.þ.b. 2 km². Þar hefur elsta og minnsta timburkirkja á Íslandi, byggð árið 1807, verið endurbyggð. Einnig hefur gamli Papeyjarbærinn verið endurbyggður. Eyjan er mishæðótt og mýrlend og var mótekja þar mikil. Mikið fuglalíf er í björgum, mest lundi, ca. 30.000 varppör. Eyjan er gróðursæl og þar hafa fundist a.m.k. 124 tegundir háplantna. Hlunnindi voru mikil í Papey og þóttu bændur þar vel efnum búnir. Uppi á Hellisbjargi, sem hæst ber á eyjunni (58 m), stendur siglingarviti, sem var byggður árið 1922. Þaðan er gott
útsýni til allra átta. Unnið hefur verið að fornleifauppgreftri vegna sagna um veru Papa í eyjunni.
Engar skipulagðar siglingar eru lengur í boði í eyjuna.