Hans Jónatan (1784–1827) var fæddur í ánauð á St. Croix í Jómfrúreyjum í Karíbahafi. Móðir hans, Emilía Regína, var ambátt ættuð frá Vestur-Afríku; faðirinn var hvítur, líklega danskur.
Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigenda sinna, Schimmelmannhjóna. Hann gat sér gott orð í orustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 en það dugði honum ekki til að leysa sig úr ánauð. Ekkjufrú Schimmelmann höfðaði sögulegt dómsmál til að staðfesta eignarhald sitt á Hans Jónatan og vann það mál.
Hans Jónatan ákvað þá að taka sér frelsi og strauk til Íslands skömmu eftir að dómur féll árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum í Löngubúð og gerðist bóndi og lét gott af sér leiða.
Austfirðingar tóku leysingjanum Hans Jónatan vel og ekkert bendir til að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit sinn á Íslandi eða uppruna í þrældómi. Hann kvæntist stúlku úr næstu sveit, Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, og eignðust þau tvö börn. Afkomendur þeirra eru nú um eitt þúsund.
Hans Jónatan var fyrsti blökkumaðurinn sem settist að á Íslandi. Ævisagan Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér (höf. Gísli Pálsson) kom út árið 2014.
Minnisvarði hefur verið reistur við hlið Löngubúðar á Djúpavogi til heiðurs honum og þeim alþjóðlegu viðhorfum sem krefjast þess að hörundslitur ráði ekki rétti manna. Minnisvarðinn ber nafnið FRELSI og er verk hins kunna listamanns Sigurðar Guðmundssonar.
Ríkisstjórn Íslands, íbúar Djúpavogs, Fiskeldi Austurlands og fjölmargir einstaklingar stóðu rausnarlega straum af kostnaði við gerð verksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði það við hátíðlega athöfn 10. júlí 2021.